4.27.2006

ég ferðaðist í gegnum tímann

100 Ára hús spot


smellið á mynd til þess að hala niður


Jæja styttist í frumsýningu...hér er myndskeið til að slá á spenninginn og sprenginn smellið á mynd til að spila í glugga

4.23.2006

Strandleikhús reis

Strandleikhús rís


Smellið til að hala niður


Já tjaldið er löngu risið en ef þið smellið á myndina getið þið spilað myndskeið frá upprisunni. Góða skemmtun sjáumst á sýningu

Styttist i frumsyningu


Jæja, gott fólk. Þá fer að styttast í frumsýningu á þessu leikriti okkar og hver fer að verða síðastur að tryggja sér miða því sætin eru fá eins og sýningarnar. En þetta er heilmikið ævintýri og er örugglega hægt að lofa dálítið annars konar leikhúsupplifun en fólk á að venjast. Hér til hægri á síðunni er hægt að finna allar upplýsingar um miðasölu. Ekki láta veðrið plata ykkur. Tjaldið er hlýtt og fýkur ekki. En vonandi gera miðarnir það. Sjáumst vel klædd og í kuldaskónum.


Afhverju geturðu ekki sofið Erlingur minn? Eru sótblekasvartir suðurhafseyja samviskupúkar að naga á þér hjartaræturnar?

4.21.2006

Af strandleikhusi


Það gekk ýmislegt á í gærkvöldi. Undir lok æfingarinnar fauk syðri veggurinn upp og öll ljós slokknuðu og leikhópurinn lá í einni þvögu af kaffi, sandbörnu konfekti, sólstólum og segldúki. Leikhópurinn upplifði algeran terror í nokkrar mínútur en svo var farið skipulega í að ganga frá öllu saman á nýjan leik. Veggurinn var treystur og öllu komið aftur á sinn stað. Það var kaldur og hrakinn leikhópur sem arkaði inn í hlýja bíla undir miðnættið í gær með þá von í brjósti helsta að tjaldið myndi lifa af hvassa nóttina. Sem það og gerði og er næsta æfing áætluð á laugardag.

Sporin í sandinum ....

varstu úti i alla nótt?


smellið hér til að hala niður

Hér er smá myndskeið til að stytta biðina eftir frumsýningu smellið á mynd til að spila en meira seinna af tjaldi, ógurlegum vindhraða, mögulegum mannskaða, samtakamátt hinna mörgu andansmanna og kvenna í baráttunni við náttúruna eða bara tjaldið fauk á æfinguErlingur: þú getur ekki farið hraðar en ljósið, þú kemst ekki einusinni hjálparlaust á klósettið.

Björk: Þá hægi ég bara á ljósinu.

4.19.2006


Do not go gentle into that good night,
Old age should burn and rave at close of day;
Rage, rage against the dying of the light.

-Dylan Thomas

Hvað er 100 ÁRA HÚS ?Um leikritið
Leikritið 100 ára hús eftir Jón Atla Jónasson fjallar um þrjár manneskjur sem komið hefur verið fyrir í herbergi á elliheimili. Allar þjást þær af elliglöpum á misháu stigi. Verkið lýsir degi eða nótt í lífi þessa fólks og samskiptum þeirra þar sem þau berjast fyrir því að halda í reisn sína og minningar í heimi sem er smátt og smátt að verða þeim framandi. Þau sækjast eftir félagsskap hvert við annað, - og nærveru í baráttunni við að halda sér á lífi en samtímis þrá þau annað líf, annan heim.
Verkið er í formi nokkurs konar kvöldvöku eða jafnvel líkvöku þar sem fólk segir sögur, dansar, deilir endurminningum, hlustar á tónlist, drekkur viský, borðar konfekt og reynir að lesa norska bók um dauðann.


Um leikskáldið
Jón Atli Jónasson sendi frá sér smásagnasafnið Brotinn takt árið 2001 og skáldsöguna Í frostinu 2005. Hann hefur skrifað kvikmyndahandrit, þýtt leikrit og unnið að ýmsum störfum við kvikmyndir og leiksýningar auk sjómennsku og ýmiss önnur störf. Jón hefur samið sex leikrit sem sett hafa verið upp síðastliðin fimm ár. Draugalest (Borgarleikhúsið 2002), Crowd Pleaser (2003), Rambo 7 (Þjóðleikhúsið 2005) og Mindcamp (2006). En líklega er Brim þekktasta verk Jóns Atla hingað til. Það var upphaflega skrifað fyrir leikhúsið Frú Emilíu en sett upp og sýnt á vegum Vesturports. Brim var frumsýnt í Vestmannaeyjum 2004 og hefur síðan verið sýnt víða um land og einnig erlendis í Þýskalandi, Finnlandi og Rússlandi. Hlaut verðlaun sem besta sýning á leiklistarhátíð nýrra leikverka í Moskvu síðast liðið haust. Jón Atli hlaut Grímuna - Íslensku leiklistarverðlaunin 2004 fyrir Brim og var einnig tilnefndur ásamt Vesturporti til menningarverðlauna DV sama ár. Brim hefur verið tilnefnt af Íslands hálfu til Leiklistarverðlauna Norðurlanda.

Hafliði

4.18.2006

Tjaldið komið upp!


Jæja, gott fólk. Þetta var erfiður dagur á ströndinni. Sólin skein og það var blankalogn á meðan leikhópurinn reisti tjaldið sem hýsir leiksýninguna 100 ára hús. Hópurinn vakti athygli fjölmiðla sem sendu fulltrúa sína á staðinn. Reyndar féllu uppreistar tjaldsúlurnar um koll í bakgrunni viðtals sem Ragnhildur í Kastljósinu var að taka. Vonandi fyrirgefst okkur það. En af tjaldinu er það að frétta að það er nú komið upp og fyrsta íslenska strandleikhúsið er orðið að veruleika. Það verður hálfgert próf fyrir hópinn að koma að tjaldinu á morgun. Það er engin vakt og engin lás á tjaldinu. Bara skilti sem á stendur 100 ára hús - Frú Emiliu - Verið velkomin - gangið vel um. Vonandi nægir það. En það er svo merkilegt að hugsa til þess sem Peter Brook skrifaði í Tóma rýminu sínu um leikarann sem þarf bara að ganga yfir tómt rýmið til að gera það að leikhúsi. Í tjaldinu er svo mögnuð birta að maður þarf varla leikara. En við höfum leikara og það verður gaman að sjá þá takast á við þetta rými. Þið sem ætlið að koma til okkar í leikhúsið, munið að taka með ykkur hlý föt og góða skapið.

4.14.2006

GETUR ÞU HÆGT A LJOSINU?


Nota ég hugarorkuna? Píri ég augun? Öskra ég stopp? Pissa ég í mig? Tek ég inn lyf? Held ég niðri í mér andanum? Þarf ég kannski að deyja og sjá svo til?

4.13.2006

Að stöðva tímannTíminn líður...lekur áfram. Ekkert fær stöðvað hann. Eða kannski eitthvað kannski þú . Smellið á mynd til að fá leiðbeiningar um hvernig hann má stöðva.

4.11.2006

Einmannaleiki drepur


Það er lífshættulegt að vera einmanna. Smellið á myndina til þess að lesa

Ghostigital og GorillazÞað eru þeir drengir í Ghostigital sem sjá um tónlistina í 100 ára húsi og standa nú sveittir bakvið græjustæðu einhvers staðar umvafnir snúrum og hljóðgervlum og trommuheilum. Ghostigital samanstendur af listamönnunum Einari Erni Benediktssyni sem nýverið tók við menningarverðlaunum DV fyrir hönd Smekkleysu sem vissulega er vel að þessum verðlaunum komin, og Curver Thoroddsen fjöllistamanni og sörfmúsíkkgúru. Reyndar saknar maður nú reyndar Smekkleysuverðlaunanna alræmdu sem lífguðu heldur betur upp á samfélagið á sínum tíma. Vissulega væri hægt að tilnefna marga til þeirra í dag.

En Ghostigital eru heldur betur á siglingu þessa daganna. Þeir voru að gefa út plötuna In Cod We Trust og svo hafa þeir bundið trúss sitt við apahljómsveitina Gorillaz. Í gær kom út smáskífa með laginu Kids with Guns og þar er að finna lagið Stop the dams Lagið er það sama og Damon spilaði með Ghostigital í Laugardagshöll á Hætta! Ertu að verða náttúrulaus-tónleikunum í byrjun árs en er hér í nýrri útgáfu. Stuttu eftir tónleikana var ráðist í að taka lagið upp í hljóðveri og er þessi útgáfa mun hægari og tregablandnari en útgáfan sem flutt var á tónleikunum. Auk þess sem innskot Einars Arnar er nú viðameira útsettu Ghostigital lúðrarsveitarkafla sem spilaður er af meðlimum Lúðrasveitar Vesturbæjar og Hrafnkeli Flóka (a.k.a. Kaktus) en hann er meðlimur í báðum þessum sveitum. Einnig var tekið upp plötuklór sem DJ Gísli Galdur spilaði og standard Ghostigital hljóðeffectar fylgdu með.

100 ára videóHér er lítið myndskeið sem Ólafur Egill hefur gert með af æfingum við undirleik þeirra Gostdigitalmanna smellið á myndina til þess að spila.

4.10.2006

Æfingar í 100 ára húsi

Æfingar standa yfir á verkinu 100 ára hús þessa daganna og þær ganga ágætlega. Það eina sem er að flækjast fyrir okkur er að hinn hæfileikaríki leikhópur okkar sem samanstendur af Ólafi Agli Ólafssyni, Jóni Páli Eyjólfssyni, Hörpu Arnardóttur, Laufey Elíasdóttur og Birni Thors er svo skrambi upptekinn. En einhvern veginn tekst okkur vonandi að grafa okkur áfram með teskeiðinni í átt að frumsýningu. Þessi litli leikhópur okkar er á kafi í alls kyns tilraunastarfsemi eins og tilheyrir svona æfingatímabili og við þokumst öll í svipaða átt vonandi. Það eru Ghostdigital eða þeir Einar Örn og Bibbi sem heitir reyndar Curver núna sem sjá um tónlistina. Hafliði Arngrímsson er leikstjóri og leikhússtjóri Frú Emilíu sem hefur umsjón með uppsetningunni. Sýningin verður frumsýnd í tjaldi niðri í Nauthólsvík og svo vonandi sýnd á fleiri stöðum við sjávarsíðuna. Það verður vonandi betra veður þegar við frumsýnum á sumardaginn fyrsta. En stefnir ekki bara í sumardaginn frysta eins og venjulega.

100 Ára Hús